Skógræktin

Eitt af aðalsmerkjum Elliðaársdalsins í dag er skógurinn sem veitir gestum dalsins skjól og býr til einstakan undraheim allan ársins hring. Það var skarpsýni rafmagnsstjórans Steingríms Jónssonar og Láru Árnadóttur konu hans í skógræktarmálum sem varð til þess að hólminn í Elliðaárdal, sem áður var hrjóstrugur, er nú orðinn að fallegum skógi með fjölbreyttu mannlífi í formi útivistar, fuglalífi og flóru.

Að virkja skóginn og hólmann og tengja hann betur við sögu Elliðaárstöðvar var ein af grunnhugmyndum í tillögu Tertu. Þremur ólíkum hönnunarteymum var boðið að hanna innsetningu í Hólman sem skapa nýja upplifun fyrir gesti og gangandi og um leið minna okkur á sambands manns og náttúru. Sóley Þráinsdóttir, Studio Flétta, Kristín María & Friðrik Steinn hönnuðu innsetningarnar í Hólmanum.

Tími og efni

Sóley Þráinsdóttir segir staðfræðilega sögu hólmans með ólíkum efnum sem mynda eins konar sundurslitna tímalínu sem nýtist jafnt til leikja, sem setrými og til fræðslu.

Hér er hægt að hlusta á hljóðleiðsögn Sóleyjar um verkið

Rótarör

Stúdíó Flétta hannaði bekk bekki úr stálrörum sem vísar til rótarkerfa trjánna sem liggja þvers og kruss um hólmann en kallast einnig á við rör veitukerfanna.

Hér er hægt að hlusta á hljóðleiðsögn Fléttu um bekkina.

„þú stígur af malbikaðri hraðbraut með hávaða og umferðargný, gengur nokkur skref og ert kominn í ósvikna íslenska náttúru –heyrir ekkert nema tíst í fuglum, þyt í laufi og sporðaskvamp í vatni. Og þinn eigin hjartslátt. þetta er Elliðaárdalur – eiginlega inni í miðri borg.“

Morgunblaðið, 28. júní, 1987.

Starfsmenn Rafveitu Reykjavíkur að gróðursetja tré í Elliðaárdal

Ómsveppir

Kristín María Sigþórsdóttir og Friðrik Steinn Friðriksson eru hönnuðir álsveppa sem komið hefur verið fyrir í skógarrjóðri í hólmanum. Sveppatínsla í skógum er núvitundarathöfn sem má líkja við skógarbað. Ómsveppirnir gefa frá sér falleg hljóð í skóginum sem falla vel að skóginum og minna okkur á að staldra við, skoða náttúruna með nýjum augum og njóta.