Straumskiptistöð
Straumskiptistöðin hýsir Gestastofu Elliðaárstöðvar en þar fer fram móttaka, viðburðir, fræðsla og vinnustofur.
Elsti hluti byggingarinnar var reistur árið 1936, eftir teikningum Sigurðar Guðmundssonar arkitekts, í fúnkísstíl og ber hún keim nýrra tíma. Stöðin tók á móti rafmagni þegar Ljósafossvirkjun var gangsett og fjórfaldaði framboð rafmagns á höfuðborgarsvæðinu.
Við endurnýjun hússins var leitað í uppruna þess hvað varðar efnisnotkun og fyrirkomulag. Um árabil var byggingin aðstaða fyrir garðyrkjudeild OR, skrifstofur Stangaveiðifélagsins og geymsla. Flett var ofan af síðari tíma breytingum og byggingin gerð aðgengileg öllum.
Breytingar eru gerðar þar sem þarf en annað fær að halda sér og er endurnýtt. Ummerki gamalla veggja eru sjáanleg, léttir veggir fjarlægðir og saga hússins gerð læsileg.